Rússneska orkufyrirtækið Gazprom greindi frá því í gær að félagið hefði valið franska félagið Total sem samstarfsaðila sinn fyrir fyrsta áfanga á stóru gasvinnsluverkefni á Shtokman-svæðinu í Barentshafi. Fyrir Total er þetta mikilvægur áfangi þar sem fyrirtækið hefur hingað til ekki náð almennilegri fótfestu á rússneska markaðinum.

Gazprom segist ætla að hefja gasframleiðslu á svæðinu í ársbyrjun 2013. Sérfræðingar telja að þróunarkostnaðurinn fyrir fyrsta áfanga verkefnisins sé á bilinu 12 til 18 milljarðar Bandaríkjadala.