Geest Plc., sem nýlega varð hlutdeildarfélag Bakkavarar sendi í gær frá sér tilkynningu um að samningar hefðu tekist um stofnun nýs fyrirtækis í þeim tilgangi að einfalda hráefnsiöflun Asda verslunarkeðjunnar sem er í eigu Wal Mart. Félagið mun heita International Produce Limited og tekur nú þegar yfir rekstur Geest English Village Salads (EVS) og Thames Fruit Ltd. (Thames). Fyrir voru félögin fyrst og fremst að sjá Asda keðjunni fyrir salati, ávöxtum og melónum en framtíðaráætlanir gera ráð fyrir að hið nýja félag muni færa sig yfir í fleiri afurðir.

Í Hálffimmfréttum KB banka kemur fram að Geest leggur fram um 76 þús. pund í handbæru fé í félagið og Teresa fjölskyldan (eigendur Thames) um 24 þús. pund og mun eignarhluturinn í félaginu ráðast af þessari skiptingu. Áætlanir gera ráð fyrir að hagnaður félagsins á seinni 6 mánuðum ársins verði um 1,7 milljón punda fyrir skatta (EBIT um 220 milljónir króna). Hagnaður EVS mun á móti minnka og sameiginleg áhrif á afkomu Geest fyrir árið 2004 eru talin verða hverfandi.

Bréf Geest lækkuðu í gær um 2,6% og var lokagengi bréfanna 517,5 pens. Geest hefur að undanförnu keypt nokkuð af eigin bréfum og skv. tilkynningu á heimasíðu félagsins ræður Geest yfir rúmlega 1,2% af eigin bréfum.