Streymisveitan Netflix hyggst gefa út skuldabréf að andvirði 2 milljarða dollara, um 242 milljarða íslenskra króna, til að fjármagna almennan rekstur félagsins, „sem kann að fela í sér framleiðslu á nýju efni“, að því er fram kemur í tilkynningu.

Bréfin verða til 10 og hálfs árs, og án uppgreiðsluákvæðis, samkvæmt ónafngreindum heimildamanni Bloomberg . Búist er við að bréfin fari á sölu síðar í dag.

Áskrifendum streymisveitunnar fjölgaði hægar en hún hafði búist við á síðasta ársfjórðungi, en verð hafa verið hækkuð nýlega til að bæta afkomu félagsins, samhliða aukinni samkeppni frá öðrum streymisveitum. Félagið ráðgerir þó að sjóðstreymi verði neikvætt um 3,5 milljarða dollara, rúma 420 milljarða króna, á árinu, en á næsta ári fari það að batna.