Tæp vika er þar til árleg uppskeru- og spilarahátíð CCP, sem ber heitið Fanfest, hefst í Hörpu. Venju samkvæmt hefst hátíðin á fimmtudegi, en í ár má segja að forskot verði tekið á sæluna með tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar á miðvikudaginn, þar sem leikin verður tónlist úr leiknum.

Eins og venja er verður fjöldi fyrirlesara og pallborða á hátíðinni gestum til uppfræðslu og afþreyingar. Í ár verður þó töluverð breyting á því ekki aðeins verður fjallað um EVE Online, Dust 514 eða aðra tölvuleiki. Má sem dæmi nefna að þrír fyrirlesarar munu fjalla um geimferðir og geimrannsóknir í raunheimum. Michael Laine, forstjóri LiftPort Group, mun fjalla um svokallaðar geimlyftur, sögu hugmyndarinnar, möguleika og hugsanlegar afleiðingar. Dr. Richard Obousy, forstjóri Icarus Interstellar mun fjalla um fræðilega möguleika á ferðalögum til annarra sólkerfa og hvort mögulegt sé að ná meiri hraða en ljóshraða. Þá mun Chris Lewicki, forstjóri Planetary Resources, ræða um möguleika á að hefja námavinnslu á smástirnum í geimnum.

Ekki nóg með þetta heldur verða einnig pallborðsumræður um tölvuleiki sem listform. Þar munu taka þátt Paola Antonelli, yfirsafnvörður hjá Museum of Modern Art í New York, Torfi Frans Ólafsson, listrænn stjórnandi CCP, Adam Saltsman hönnuður Canabalt og Tarn Adams, einn hönnuða hins stórmerkilega leiks Dwarf Fortress.

Viljum ekki festast í sama farinu

„Fanfest er að verða tíu ára gömul hátíð og hefur svo sannarlega breyst og þróast í árana rás. Dagskráin í ár er að einhverju leiti liður í eðlilegri þróun, við viljum ekki festast í sama farinu og alltaf bjóða upp á metnaðarfulla og spennandi dagskrá, gera betur en árið á undan,“ segir Eldar Ástþórsson, fjölmiðlafulltrúi CCP.

En hann segir hátíðina einnig bera þess merki að í ár er verið að fagna tíu ára afmæli EVE heimsins – og líta fram á veginn. „Það gerum við með margvíslegum hætti á árinu undir merkjum EVE Second Decade, bæði í leiknum sjálfum og ýmsum viðburðum raunheimum sem þá tengjast sýndarheimi EVE Online. Má þar nefna sýningu á EVE í MoMA listasafninu í New York og True Stories from Online’s First Decade verkefninu þar sem við erum að safna sögum leikmanna af merkum atburðum sem átt hafa sér stað í leiknum síðasta áratug. Dagskráin á Fanfest er í þessum anda – og hátíðinni munum við kynna fleiri viðburði og verkefni sem tengjast áratugs afmæli EVE.“

Hann segir að mikill metnaður sé fyrir því að halda áfram að þróa hátíðina með þeim hætti að hún sé alltaf spennandi, ekki aðeins fyrir spilara EVE Online og nú DUST 514, heldur líka fyrir blaðamenn og þá sem starfa í tölvuleikja- og afþreyingariðnaðinum. „Það hefur okkur tekist í gegnum tíðina, og hátíðin er að stækka. Bæði hvað varðar dagskrána sjálfa og í fjölda þeirra EVE spilara sem sækja hátíðina heim, sem og blaðamanna. Við þurfum að vera á tánum til að halda hátíðinni spennandi svo fólk hvaðanæva úr heiminum haldi áfram að ferðast norður til Reykjavíkur.“