Undirbúningur er nú í fullum gangi vegna ferðar viðskiptasendinefndar Útflutningsráðs til Indlands undir forystu Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, 25. febrúar til 4. mars næstkomandi.

Í frétt 'Utflutningsráðs kemur fram að tilefni sendinefndar til Indlands að þessu sinni, er opnun íslensks sendiráðs í höfuðborg landsins Nýju-Delí. Skipulagður verður sérstakur viðskiptadagur þann 27. febrúar n.k. í samstarfi við CII sem eru sterk fyrirtækjasamtök á Indlandi.

Megináherslan verður lögð á fyrirtækjastefnumót auk þess sem haldin verður viðskiptaráðstefna og móttaka. Útflutningsráð hefur valið samstarfsaðila á Indlandi sem þekkja markaðinn og atvinnulífið á Indlandi vel. Þeir munu hafa það hlutverk að skipuleggja viðskiptafundi í samstarfi við Útflutningsráð, fyrir þá þátttakendur í sendinefndinni sem þess óska.

Auk Nýju-Delí er gert ráð fyrir að heimsækja borgirnar Bangalore, Cochin og Mumbai. Sérstök dagskrá er fyrirhuguð fyrir fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi og/eða fiskvinnslu í borginni Cochin í samstarfi við MPEDA á Indlandi.

Fyrir hugbúnaðarfyrirtæki er á sama hátt gert ráð fyrir sérstakri dagskrá í Bangalore í samstarfi við NASSCOM.

Í fréttabréfi Útflutninsráðs kemur fram að jafnt innflytjendur sem útflytjendur auk fjárfesta eru velkomnir að skrá sig í sendinefndina en ennþá er möguleiki að staðfesta þátttöku.