Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagðist hafa unnið „95 prósent sigur“ í landsdómsmálinu, en hann hélt fund með stuðningsmönnum sínum í Valhöll á sjötta tímanum í kvöld. Sagði hann að fákunnátta og hefnigirni í garð Sjálfstæðisflokksins og hans sjálfs hefði ráðið ríkjum hjá þeim Alþingismönnum sem tóku ákvörðun um að ákæra hann, en varaði hins vegar við því að Sjálfstæðismenn svöruðu fyrir í sömu mynt. Sagðist hann vona að málið gegn honum yrði síðasta skiptið sem landsdómur kæmi saman og fagnaði því sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í gær um að flokkurinn hyggðist ekki ætla að beita landsdómi gegn pólitískum andstæðingum sínum. Geir sagðist vænta þess að þegar lengra væri um liðið og sögubækurnar skrifaðar yrði skömm þeirra meiri en hans sem stóðu að ákærunni.

Gerði Geir létt gaman að umræðunni sem spratt upp eftir viðbrögð hans við dómnum í gær og sagði að hann hefði þurft að sitja á sér í tvö ár og því væri ekki að undra að þegar hann loks fengi tækifæri til að tjá sig um málið hafi honum verið mikið niðri fyrir. Hitinn hafi snúið að því atriði sem hann var dæmdur sekur fyrir, sem Geir sagði vera formsatriði eitt. Aðalmálið væri hins vegar að hann hafi verið sýknaður af öllum alvarlegustu ákæruliðunum.

Hvað varðar hugsanlega kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu sagði Geir að það væri til skoðunar, en engin ákvörðun hefði enn verið tekin um það. Hins vegar hefðu verið þeir annmarkar á málsmeðferðinni að það gæfi tilefni til slíkrar skoðunar.

Þá sagði hann að fyrirkomulagið í kringum landsdóm, þ.e. dómur sem að hluta er pólitískt skipaður og þar sem ákæruvald er í höndum Alþingis, væri nítjándu aldar réttarfar sem ekki ætti heima í lýðræðisríki á 21. öldinni. Alþingi hefði með málaferlunum sýnt að það gæti ekki farið með þetta vald.

„Málið var misheppnuð aðferð að mér og mínum heiðri,“ sagði Geir, en bætti því við að heiður Alþingis hefði beðið hnekki. Sjálfstæðisflokkurinn ætti að taka þátt í því að endurreisa heiður Alþingis að loknum næstu kosningum og beita sér fyrir því að sú stríðsöxi, sem veifað hafi verið allt frá hruni, verði grafin og að stjórnmálaflokkar fari aftur að horfa til framtíðar.