Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna hefur gefið leyfi fyrir sölu á fyrstu genabreyttu eplunum sem seld verða þar í landi.

Ráðuneytið segir, samkvæmt frétt Daily Science Journal, að leyfið hafi verið veitt vegna þess að ekki sé talið að af eplunum stafi hætta fyrir aðrar landbúnaðarafurðir.

Ekki er nauðsynlegt að fá leyfi frá landbúnaðarráðuneytinu til að selja landbúnaðarvörur, en lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna hefur einnig sagst vera að skoða eplin.

Eplategundin sem um ræðir, Arcic Apple, er afurð kanadiska fyrirtækisins Okanagan Specialty Fruits og verður aldinkjöt eplisins síður brúnt þegar búið er að skera eplið. Þetta gerir eplið heppilegt fyrir veitingastaði, verslanir og önnur fyrirtæki sem bjóða upp á niðurskorin epli eða eplabita.