Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors (GM), sem er í þriðjungseigu bandaríska ríkisins, hefur ákveðið að draga til baka beiðni um 14,4 milljarða dala lán frá ríkinu. Fjármunina átti að nota til að þróa eldsneytishagkvæma bíla.

Bílaframleiðandinn segir í tilkynningu að ekki sé þörf á láninu, sem ber lága vexti, vegna fjárhagslega sterkrar stöðu félagsins. GM geti fjárfest í nýjum bifreiðum án aðstoðarinnar. Óskað var eftir láninu í október 2009.

Staða félagsins hefur batnað mikið eftir að bandarískur bílaiðnaður tók dýfu í kjölfar efnahagskreppunnar. Bloomberg fréttastofa hefur eftir sérfræðingi að staða félagsins sé góð. Hann segir einnig að málið sé pólitískt, félagið vilji ekki gefa sig út fyrir að taka við fjármunum almennings.

GM var tekið yfir af bandaríska ríkinu árið 2009 en þá varð það gjaldþrota. Bætt staða félagsins má reka til hlutabréfaútboðs sem haldið var í nóvember síðastliðnum. Þar aflaði félagið sér 23 milljarða dala og hlutur ríkisins minnkaði um 61%.