Síðasta Pontiac bifreiðinn rann af framleiðslulínu Orion Township verksmiðju General Motors í Bandaríkjunum gær klukkan 12:45 að staðartíma. Bíllinn var af gerðinni Pontiac G6 og var engum fjölmiðlum leyft að vera viðstaddir, einungis starfsmönnum sem gerðu lokaskoðun á 100 síðustu G6 bílunum. Margir þeirra stilltu sér upp til að fá mynd af sér við síðasta Pontiacinn.

The Detroit News greindi frá þessu í dag og hafði eftir talsmanni GM að þetta hafi verið dapurleg kveðjustund á þessari 83 ára gömlu bíltegund sem fyrst var kynnt á New York Auto Show árið 1926. Á 83 ára tímabili hafa verið seldir 41 milljón Pontiac fólksbílar og skúffubílar.

GM kynnti í apríl síðastliðnum að dagar Pontiac væru senn á enda. Var það liður í endurskipulagningu fyrirtækisins og hluti af skilyrðum þess að samsteypan fengi fjárhagsaðstoð frá bandaríska ríkinu.

Síðasti Pontiac bíllinn fór beint inn í síðustu sölusendingu ólíkt síðasta Alero Oldsmobile bílnum sem var áritaður af hundruðum verksmiðjustarfsmanna og síðan gefinn á R.E Olds Transportation Museum í Lasing.

Pontiac Silver Streak vakti athygli upp úr 1930. Ímynd Pontiac á árunum upp úr 1950 var þó einkum talin felast í hraða og kynþokka og varð hann vinsæll meðal skólafólks.

Salan á Pontiac náði hámarki 1984 þegar 850.000 glænýir Pontiac bílar komust í hendur nýrra eigenda. Var það rúmlega fjórfalt meiri sala en var á þessari tegund á síðasta ári.

Nú liggur fyrir að Orion Township verksmiðjan verður endurskipulögð og gerð klár til að hefja framleiðslu á smábílum GM árið 2011.