Bandaríski tæknirisinn Amazon skilaði 57 milljóna dala tapi á fyrsta ársfjórðungi, en þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu . Afkoman var nokkru verri en á sama tímabili á síðasta ári, þegar fyrirtækið hagnaðist um 146 milljónir dala.

Tekjur fyrirtækisins jukust hins vegar á milli ára um 15% og námu nú 22,7 milljörðum dala. Var vöxturinn nokkru meiri en búist hafði verið við, en þar munaði mestu um sölutekjur í Norður-Ameríku sem er stærsti markaður fyrirtækisins.

Fyrirtækið gaf einnig út spá fyrir annan ársfjórðung og gerir það meðal annars ráð fyrir því að sölutekjur muni nema á milli 20,6 til 22,8 milljarða dala og aukist þannig um 7-18% á milli ária. Þá býst félagið við því að rekstrarniðurstaða félagsins muni vera frá 500 milljóna dala tapi og upp í 50 milljóna dala hagnað. Á sama tíma í fyrra tapaði félagið 15 milljónum dala.

Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hækkaði um 5% eftir birtingu uppgjörsins.