Hagnaður EADS, stærsta farþegaflugvélaframleiðanda í heimi, nam 118 milljónum evra á öðrum fjórðungi þessa árs. Meðalspá greinenda gerði ráð fyrir 338 milljóna hagnaði, og var hagnaðurinn því rúmlega 59% minni en búist hafði verið við.

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Tekjur EADS námu 9,89 milljörðum evra á árinu og jukust um 5% á milli ára.

Krossgengi evru og Bandaríkjadals var félaginu óhagstætt á fjórðungnum, en veiking dalsins dró úr hagnaði um 700 milljónir evra. Auk þess kostuðu tafir á afhendingu farþegaflugvélarinnar Airbus A380 félagið 715 milljónir evra á tímabilinu.