Þrátt fyrir að græjuáhugamenn hafi tekið fréttum af nýjum snjallsímum Blackberry verður hið sama ekki sagt um fjárfesta. Gengi bréfa Blackberry, sem þar til fyrir skömmu hét Research In Motion, féll um ein 12% prósent eftir kynningu á nýju símunum.

Í frétt Bloomberg segir að annars vegar hafi fjárfestar sett fyrir sig að ekki var gefin nákvæm dagsetning á því hvenær nýju símarnir koma á markað í Bandaríkjunum og hins vegar þyki mörgum þeir of hátt verðlagðir.

Símarnir, sem bera hin óþjálu heiti Z10 og Q10, komu á markað í Bretlandi í dag og á næstu dögum verður hægt að kaupa þá í Kanada og í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Forstjóri Blackberry, Thorsten Heins segir að það sé símafyrirtækjunum að kenna að tafir verða á sölu símanna í Bandaríkjunum. Stóru farsímafyrirtækin fjögur, Verizon Wireless, AT&T, Sprint og T-Mobile, eru taka lengri tíma í prófanir á símunum en kanadísku fyrirtækin.

Lækkunin á gengi bréfanna er áfall fyrir Blackberry, sem hefur undanfarin ár þurft að horfa upp á minnkandi markaðshlutdeild og taprekstur.