Gengi hlutabréfa Sjóvár hefur hækkað um 0,59% í 64 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Fram kom í gær að hagnaður Sjóvár nam 205 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta var rúmlega 75% minni hagnaður en á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 843 milljónum króna. Á öðrum ársfjórðungi jókst hagnaðurinn nokkuð á milli ára. Hann fór úr 225 milljónum króna í 329 milljónir.

Fram kom í fjárfestakynningu Sjóvár í morgun að góður hagnaður hafi verið af vátryggingastarfsemi fyrirtækisins. Horfur eru áfram óbreyttar um raunvöxt iðgjalda. Á sama tíma mun draga úr rekstrarkostnaði seinni hluta árs. Á hinn bóginn sé ólíklegt að horfur um afkomu náist vegna lægri fjárfestingartekna.