Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar hækkaði um 2,35% í Kauphöllinni í viðskiptum upp á rúmar 48 milljónir króna í dag. Þetta var mesta hækkun dagsins. Gengi bréfa félagsins stendur í 196 krónum á hlut. Gengi bréfanna hækkaði um 1,78% á markaði í Danmörku.

Á hæla Össurar fylgdi gengi hlutabréfa Icelandair Group, sem hækkaði 1,23% í viðskiptum upp á 40,8 milljónir króna.

Á móti lækkaði gengi hlutabréfa Marel um 0,7% og gengi Haga um 0,28%.

Mestu viðskiptin í dag voru með hlutabréf Marel. Þau námu rúmum 117,5 milljónum króna. Gengi bréfa félagsins stendur í 142,5 krónum á hlut.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,69% og stendur hún nú í 996,5 stigum.