Gengi hlutabréfa Facebook heldur áfram að lækka en það sem af er degi nemur lækkunin 1,1% og stendur gengi hlutabréfanna í um 27,8. Upphaflegt útboðsgengi var 38 og frá þeim degi hefur gengi bréfanna lækkað um ein 26,8%.

Markaðsvirði fyrirtækisins hefur lækkað um eina 30 milljarða frá útboðinu þann 18. maí og er megn óánægja með útboðið meðal fjárfesta sem tóku þátt í því. Umsjónaraðili útboðsins, fjárfestingarbankinn Morgan Stanley, hefur sætt harðri gagnrýni, en hann telur ekkert athugavert við sína aðkomu að útboðinu. Hins vegar hafi tæknileg bilun í kauphöllinni fyrsta hálftíma viðskipta með bréfin sett strik í reikninginn og skemmt fyrir.