Gengi hlutabréfa bæði Icelandair Group og Haga lækkaði talsvert í dag. Gengi bréfa flugfélagsins féll um rétt rúm 3% og endaði það í 6,35 krónum á hlut. Íslandsbanki greindi frá því í morgun að hann ætli að selja fjórðung af 20% hlut sínum í félaginu á morgun og hinn daginn.

Gengi bréfa Haga lækkaði á sama tíma um 1,94% og endaði í 17,65 krónum á hlut. Gengi bréfa Haga hefur ekki verið lægra síðan 21. mars síðastliðinn. Gengið hefur í tvígang náð hæstu hæðum, 18,9 krónum á hlut. Síðast gerðist það 25. maí síðastliðinn. Síðan þá hefur það fallið um 6,6%. Hagar voru skráðir á hlutabréfamarkað um miðjan desember í fyrra. Gengi hlutabréfa félagsins var í lok fyrsta viðskiptadags tæpar 16 krónur á hlut. Gengið hefur hækkað um ríflega 10% síðan þá.

Af öðrum félögum lækkaði gengi hlutabréfa Marel um 0,65%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,08% í dag og endaði hún í tæpum 1.057 stigum.