Gengi bréfa tævanska farsímaframleiðandans lækkaði um 7% í dag eftir að fyrirtækið sendi út afkomuviðvörun. Ekki er útilokað að gengið hefði lækkað enn meira, en kauphöllin í Tævan leyfir ekki meira en 7% lækkun á einum degi.

Í viðvöruninni segir að útlit sé fyrir að tekjur á fjórða ársfjórðungi verði lítið meiri en á sama tíma í fyrra. Fyrri spár HTC höfðu gert ráð fyrir 20-30% tekjuaukningu.

Harðari samkeppni og minni eftirspurn eftir snjallsímum er kennt um. Afkomuviðvörunin kom greiningaraðilum og fjárfestum á óvart, en HTC segist þó búast við því að tekjur fari aftur að aukast á fyrri helmingi næsta árs.