Þó að miklar hækkanir hafi verið á hlutabréfamarkaði hér á landi það sem af er degi gildir hið sama ekki á heimsmörkuðum. Þannig hafa allar helstu hlutabréfavísitölur heimsins hafa lækkað í viðskiptum dagsins, en það þykir bera þess merki að markaðsaðilar óttist núverandi stöðu í heimshagkerfinu.

Í Evrópu hefur FTSE-vísitalan í Lundúnum lækkað um 0,39%, Dax-vísitalan í Frankfurt hefur lækkað um 1,48% og Cac-vísitalan í París hefur lækkað um 1,64%.

Á Asíumarkaði lækkuðu hlutabréfavísitölur einnig nokkuð skarpt í viðskiptum dagsins. Shanghai-vísitalan lækkaði um 3,42% og Hang Seng-vísitalan í Hong Kong lækkaði um 1,77%. Þá hefur Dow Jones-vísitalan í kauphöllinni í New York lækkað um 1,28% það sem af er degi.

Það er því annað uppi á teningnum á hlutabréfamarkaði ytra en hér á Íslandi. Úrvalsvísitalan hefur þannig hækkað um 1,89% í mikilli veltu það sem af er degi og stendur nú, þegar þetta er skrifað, í 1.604 stigum. Er það hæsta gildi hennar frá efnahagshruninu 2008.

Hægt er að sjá yfirlit yfir stöðu hlutabréfavísitalna víðs vegar um heiminn á vef BBC.