Gengi hlutabréfa Marel hefur hækkað um 1,29% frá upphafi viðskipta í Kauphöllinni í dag. Það stendur nú í 137,25 krónum á hlut og hefur það aldrei verið hærra. Greining Íslandsbanka mælti með því í verðmati á dögunum að fjárfestar kaupi hlutabréf félagsins og settu rúmlega 150 króna verðmiða á bréfin. Það er í kringum 10% hærra verð en bréfin fara á í dag.

Til samanburðar stóð gengi bréfanna í 113,5 krónum á hlut fyrir ári. Það hefur því hækkað um rúmlega 21% síðastliðna 12 mánuði. Miðað við gengi hlutabréfanna nú er markaðsvirði Marel rétt rúmir 100 milljarðar króna.

Bréf Marels eru þau einu sem hafa hækkað í verði í Kauphöllinni það sem af er degi.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,51% og stendur hún í 959,13 stigum.