Úrvalsvísitalan lækkað um 0,2% í 2,1 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Lækkun vísitölunnar má að stórum hluta rekja til þess að gengi Marels féll um 1,7% í 77 milljóna veltu og stendur nú í 564 krónum á hlut.

Þriðjungur veltunnar á aðalmarkaðnum var með hlutabréf Festi eða um 720 milljónir króna. Gengi félagsins stóð í 226 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar, líkt og á föstudaginn.

Iceland Seafood hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,7% og stendur nú í 9,45 krónum. Gengi fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins Sýnar hækkaði einnig um 2,2% og stóð í 70 krónum við lokun Kauphallarinnar. Dagslokagengi Sýna hefur ekki verið hærra síðan í apríl 2018.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um hálft prósent í 47 milljóna veltu og endaði daginn í 131 krónu á hlut. Gengi Íslandsbanka hefur ekki verið hærra frá skráningu í júní síðastliðnum. Hlutabréf bankans hafa hækkað um 4,3% frá birtingu uppgjörs annars ársfjórðungs þann 28. júlí síðastliðins.