Gengi krónunnar er hátt um þessar mundir, bæði þegar litið er til langtímameðaltals raungengis og þess sem við teljum að tryggi ytra og innra jafnvægi þjóðarbúsins, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Mikill vaxtamunur ræður miklu um þessa sterku stöðu krónunnar. Munurinn endurspeglar hins vegar stöðu íslenska hagkerfisins í samanburði við önnur hagkerfi. Með áhrifum sínum á væntingar um vaxtamuninn hafa lækkandi verðbólga, lágar hagvaxtartölur og ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar dregið einhvern þrótt úr því styrkingarferli sem einkenndi gengisþróunina í apríl og maí,? segir greiningardeildin.

Hún gerir ráð fyrir að gengi krónu haldist hátt svo lengi sem vaxtamunur minnki ekki að neinu marki. ?Það verður því ekki fyrr en bratt vaxtalækkunarferli Seðlabankans færist nær í tíma að gengi krónunnar fer að lækka. Stór hluti stöðutöku með krónunni er til fremur skamms tíma, og má þar nefna bæði krónubréf og skammtímastöður þær sem endurspeglast í framvirkri gjaldeyrisstöðu bankanna.?

Meðal þeirra landa sem eru með þróaðan gjaldeyrismarkað, segir greiningardeildin, eru skammtímavextir hér á landi nú þeir næsthæstu. ?Gangi stýrivaxtaspá okkar eftir eru hins vegar allar líkur á að hið mikla aðdráttarafl íslenskra skammtímavaxta hjaðni hratt, sér í lagi ef vextir í öðrum hávaxtalöndum haldast tiltölulega háir,? segir hún.

Óvissan í spánni snýr að verulegu leyti að því samspili vaxta, gengis og verðlags sem getið er að ofan. ?Seðlabankinn lýsti í Peningamálum í mars hvernig brugðist yrði við snarpri gengislækkun með hærri stýrivöxtum. Þótt við teljum ólíklegt að bankinn muni beinlínis hækka vexti ef krónan gefur eftir á næstunni mun slík hreyfing líklega hægja á, eða jafnvel stöðva, lækkunarferli stýrivaxta, að minnsta kosti tímabundið,? segir greiningardeildin.