Gengi breska pundsins lækkaði talsvert í dag gagnvart öðrum gjaldmiðlum og hefur það nú ekki verið lægra á móti bandaríkjadal síðan sumarið 2010. Ástæðan fyrir gengislækkuninni er sú ákvörðun matsfyrirtækisins Moody's að lækka lánshæfiseinkunn breska ríkisins um einn flokk en við það fór hún úr AAA niður í AA1. Moody's segir horfur breska ríkisins neikvæðar.

Á vef breska viðskiptadagblaðsins Financial Times í dag segir að ráðamenn í Bretlandi fullyrði að ríkissjóður standi vel, skuldir landsins séu viðráðanlegar og geti stjórnvöld staðið við skuldbindingar sínar.

Markaðsaðilar og fjármálasérfræðingar segja í samtali við blaðið aðstæður slíkar nú um stundir að lægra lánshæfismat eigi ekki að koma á óvart. Það hafi í raun vofað yfir og lækkunin þegar komin fram í gengisvísitölunni. Af þeim sökum hafi gengið ekki lækkað eins mikið og það myndi gera ef einkunnin kæmi úr lausu lofti.