Hlutabréfaverð sænsku streymisveitunnar Spotify hefur hækkað um meira en 9% í fyrstu viðskiptum í dag en félagið birti ársuppgjör í morgun. Afkoma félagsins versnaði talsvert á milli ára en notendum streymisveitunnar fjölgaði þó áfram og nálgast bráðlega hálfan milljarð.

Virkir notendur streymisveitunnar voru 489 milljónir talsins sem var talsvert yfir væntingum greiningaraðila sem áttu von á að fjöldinn yrði nær 478 milljónum. Í umfjöllun Reuters segir að markaðsherferð og vöxtur í Indlandi og Indónesíu hafi stuðlað að fjölgun notenda.

Þá fjölgaði borgandi áskrifendum um 14% á milli ára og voru um 205 milljónir á síðasta fjórðungi. Spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir 202,3 milljónum greiðandi áskrifendum. Áætlun Spotify um fjölda áskrifenda á yfirstandandi fjórðungi var sömuleiðis yfir spám.

Spotify tapaði 270 milljónum evra, eða um 41 milljarði króna, á fjórða ársfjórðungi 2022 samanborið við 39 milljóna evra tap á sama tímabili árið 2021. Taprekstur félagsins má m.a. rekja til mikillar fjölgunar starfsmanna á undanförnum þremur árum.

Spotify tilkynnti í síðustu viku að það hyggðist segja upp nærri 600 manns í hagræðingaraðgerðum, eða um 6% af starfsfólki sínu. Daniel Ek, forstjóri Spotify, viðurkenndi að hafa farið of geyst í fjárfestingar í heimsfaraldrinum.