Gengi breska pundsins féll gagnvart Bandaríkjadal í gær og hafði ekki verið lægra í tvö ár þegar það fór niður í 1,8289 á gjaldeyrismörkuðum.

Það var síðast svo lágt í júlí árið 2006.

Engar sérstakar hagtölur birtust í gær sem útskýrðu lækkunina og er hún þar af leiðandi rakin til áhyggna fjárfesta af stöðu breska hagkerfisins og þess styrkingarferlis sem Bandaríkjadalur hefur verið í að undanförnu.

Styrking dalsins á gjaldeyrismörkuðum er svo aðallega rakin til þess að menn óttast að staðan í hagkerfum evrusvæðisins kunni að vera verri en talið hefur verið.