Hlutabréfaverð fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins Sýnar hækkaði um 1,5% í dag og stendur nú í 68 krónum. Dagslokagengi Sýnar hefur ekki verið hærra frá því í júní 2018.

Af 403 milljóna veltu með bréf Sýnar í dag voru ein stök viðskipti upp á 337,5 milljónir króna með 1,9% hlut í félaginu.

Sjá einnig Sýn boðar hluthafafund

Í gær keypti Fasti, félag í eigu hjónanna Hilmars Þórs Kristinssonar og Rannveigar Eirar Einarsdóttur, 7,7% hlut í Sýn fyrir 1,3 milljarða króna. Félagið Frostaskjól ehf., sem er í jafnri eigu Reirs og Flóka Invest, fjárfestingafélagi Róberts Wessman, seldi Fasta 7,1% hlut í viðskiptunum.

Síminn hækkað um 9% á tveimur vikum

Hlutabréfaverð Símans hækkaði um 0,9% í 45 milljóna króna viðskiptum í dag og stendur nú í 11,7 krónum á hlut. Gengi fjarskiptafélagsins hefur nú hækkað um 9,3% á tveimur vikum eða frá því að samningar náðust við Ardian um uppfærðan kaupsamning vegna sölunnar á Mílu.

Hlutabréfagengi Símans tók að lækka um miðjan síðasta mánuð og fór niður í 10,7 krónur eftir að tilkynnt var um að Ardian væri ekki reiðubúið að ljúka kaupum á Mílu á grundvelli upprunalega kaupsamningsins. Eftir lokun markaða föstudaginn 22. júlí tilkynnti Símann um að samkomulag hafi náðst við Ardian um að kaupverðið lækki úr 78 milljörðum króna í 73 milljarða eftir sáttatillögur við Samkeppniseftirlitið.