Það sem af er öðrum ársfjórðungi hefur gengi hlutabréfa í Bakkavör Group hf. hækkað um 27% og haldist það óbreytt til mánaðamóta má gera ráð fyrir að jákvæð áhrif vegna þessa á afkomu KB banka hf. verði um 2,5 milljarðar króna, að mati Greiningar Íslandsbanka.

Í Morgunkorni Íslandsbanka í dag er rifjað upp að KB banki er eigandi að £12,7 milljóna skuldabréfi með breytirétti í hlutabréf á Bakkavör. Bréfið er frá árinu 2001 og var gefið út í tengslum við kaup Bakkavarar á Katsouris Fresh Foods. Síðan hefur bréfið öðlast enn meira virði í ljósi hækkunar hlutabréfa Bakkavarar. Nú er áhætta bréfsins sambærileg og ef um hlutabréfaeign væri að ræða og virði bréfsins breytist því í samræmi við verðþróun hlutabréfa Bakkavarar, að því er segir í Morgunkorninu. Stærð bréfsins og mikil gengishækkun Bakkavarar hefur því mjög mikil áhrif á hagnað KB banka. Gengi Bakkavarar hefur hækkað um 27% á öðrum ársfjórðungi og haldist það óbreytt til mánaðamóta má gera ráð fyrir að gengishagnaður KB banka vegna þessa skuldabréfs verði um 2,5 milljarðar króna.

Hlutabréf KB banka hafa hækkað um 42% á öðrum ársfjórðungi og þar af um 23% frá því að tilkynnt var um kaup bankans á danska bankanum FIH fyrir rúmri viku. Kaupin á FIH hafa lítil áhrif á uppgjör bankans á 2. ársfjórðungi að sögn Greiningar Íslandsbanka. Í Morgunkorninu kemur einnig fram að áhrif 20% eignarhlutar KB banka í breska bankanum Singer & Friedlander séu lítil á öðrum ársfjórðungi. Því segir Greining Íslandsbanka að fram fer sem horfir mun Bakkavör móta hagnað KB banka á öðrum ársfjórðungi, sem oft áður, en gengishagnaður KB banka af breytanlega skuldabréfinu á Bakkavör nam fast að 4 milljörðum á síðasta ári.