Pappírshagnaður George Lucas vegna hlutabréfaeignar hans í Walt Disney fyrirtækinu nemur 2,2 milljörðum dala frá því að hann eignaðist hlutinn í árslok 2012, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Árið 2012 seldi hann Lucasfilm samstæðuna til Disney fyrir 2,2 milljarða dala í reiðufé og 37,1 milljón hluti í Disney. Á þeim tíma var hluturinn virði um 1,9 milljarða dala. Gengi Disneyfyrirtækisins hefur hins vegar hækkað um 70% frá þessum tíma og er hluturinn nú virði um 4,1 milljarðs dala.

Fleiri hafa hagnast vel á hækkun gengis fyrirtækisins. Isaac Perlmutter var stærsti einstaki hluthafinn í Marvel Entertainment, sem Disney keypti árið 2009 og greiddi fyrir með reiðufé og hlutabréfum. Hlutur Perlmutter var um 690 milljóna dala virði á þeim tíma, en er nú um 2,4 milljarða dala virði.

Þessar fjárhæðir blikna hins vegar í samanburðinum við eign Laurene Powell Jobs, ekkju Steve Jobs. Jobs seldi alla hluti sína í Apple þegar honum var ýtt út úr fyrirtækinu árið 1985 og fjárfesti m.a. í teiknimyndaframleiðslufyrirtækinu Pixar. Hann átti meirihluta hlutafjár í Pixar þegar Disney keypti fyrirtækið árið 2006 og greiddi allt kaupverðið með eigin hlutabréfum. Powell Jobs er nú stærsti einstaki hlutahafi Disneyfyrirtækisins með um 130 milljónir hluta, sem eru nú um 14,3 milljarða dala virði. Þá á hún einnig hlut í Apple sem er um fimm milljarða evra virði.