Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health heftur gert nýjan samstarfssamning við alþjóðlegt lyfjafyrirtæki. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er heildarvirði samningsins um 8 milljónir dollara eða ríflega 1,1 milljarður króna.

Samstarf Sidekick Health og lyfjafyrirtæksins, sem fjallað er um í Viðskiptabaðinu sem kom út á fimmtudaginn, felur sér í fjarstuðning og fjarvöktun sjúklinga, sem eru að taka þátt í rannsóknum á nýju lyfi lyfjafyrirtækisins, sem notað er í meðferð við offitu.

Sidekick Health, sem stofnað var árið 2014 af Sæmundi Oddssyni og Tryggva Þorgeirssyni, hefur stækkað ört á síðustu árum. Í sumar voru starfsmennirnir orðnir 150 talsins en til þess að setja það í samhengi þá voru starfsmennirnir tólf í byrjun árs 2019.

Í byrjun maí síðastliðins lauk félagið 55 milljóna dollara eða 7,8 milljarða króna fjármögnun. Á síðustu árum hefur félagið því sótt sér ríflega 10 milljarða króna til erlendra fjárfesta eins og Wellington Partners og Asabys Partners. Auk þess hafa Novator Ventures og Frumtak Ventures fjárfest í Sidekick Health. Eftir fjármögnunarferlið síðasta vor var félagið metið á um 350 milljónir dollara eða tæplega 50 milljarða króna.

Fossar fjárfestingabanki leiðir nú nýtt fjármögnunarferli Sidekick Health þar sem íslenskum fjárfestum er er boðið að kaupa hlut í félaginu. Hlutafjáraukningin, sem Fossar sjá um, gæti numið nokkrum milljörðum króna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ferlið enn í gangi og stefnir í umframeftirspurn.

Auk nýja samningsins hefur Sidekick á síðustu þremur árum gert samstarfssamninga við Pfizer, AstraZeneca og Bayer. Auk þess hóf fyrirtækið á síðasta ári samstarf við sjúkratryggingafyrirtækið Anthem sem tók þátt í nýafstaðinni fjármögnunarlotu.