Að mati Deloitte er ekki eðlilegt að sami einstaklingurinn sé stjórnarformaður Eirar og á sama tíma sinni verkefnum framkvæmdastjóra Eirar. Í skýrslu Deloitte um hjúkrunarheimilið segir að mikilvægt sé að ekki sé skörun á starfsviði stjórnar og framkvæmdastjóra þar sem slíkt geti veikt eftirlit stjórnar með störfum framkvæmdastjóra og starfsemi stofnunarinnar.

Gerðar eru athugasemdir varðandi fleiri þætti í stjórnskipulagi og stjórnarháttum Eirar í skýrslunni. Þar segir m.a. að ekki sé æskilegt að stjórnskipulagið sé með þeim hætti að stjórn ráði aðra stjórnendur en framkvæmdastjóra stofnunarinnar. „Ef stjórn ber ábyrgð á ráðningu stjórnenda þá eru viðkomandi stjórnendur ekki lengur ábyrgir gagnvart framkvæmdastjóra og þar af leiðandi getur framkvæmdastjóri ekki borið ábyrgð á rekstri gagnvart stjórn. Almenna reglan er sú að framkvæmdastjóri sinni daglegum rekstri stofnunarinnar og upplýsi stjórn um ráðningar hjá stofnuninni eða leiti staðfestingar stjórnar á ráðningum lykilstjórnenda.“

Þá telur Deloitte að framkvæmdastjóri sé vanhæfur til meðferðar máls og ákvörðunar um ráðningar venslamanna í störf stofnunarinnar. „Almenn regla ætti að vera að framkvæmdastjóri feli öðrum stjórnendum ráðningarvaldið í þeim tilvikum þar sem venslamenn eru á meðal umsækjenda eða hann leiti staðfestingar stjórnar á ráðningunni. Mikilvægt er að ráðningarferlið þoli skoðun og að staðfest sé að öðrum aðila að viðkomandi hafi verið besti valkosturinn fyrir stofnunina hverju sinni.“