Áætlanir fjármálaráðuneytisins gera ráð fyrir að 50 – 80 milljarðar króna muni innheimtast af þeim kröfum sem fjármálaráðuneytið yfirtók frá Seðlabankanum um síðustu áramót. Það jafngildir 15 til 23% af verðgildi bréfanna.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins er bent á að ríkissjóður yfirtók í byrjun árs óvarin tryggingabréf vegna veð- og daglána Seðlabankans til innlendra fjármálastofnana að fjárhæð 345 milljarðar króna og greiddi fyrir með skuldabréfi útgefnu á Seðlabankann að fjárhæð 270 milljarðar króna.

Í vefritinu kemur fram að fyrir liggur að fjármagna þarf fjárþörf ríkissjóðs á árinu á innlendum markaði. Áformað er að gera það með því að nýta 100 milljarða kr. af innistæðum ríkissjóðs í Seðlabanka ásamt því að gefa út markaðsskulda bréf umfram innlausn skulda á gjalddaga fyrir um 45 milljarða króna.

Á gjalddaga eru ríkisbréf fyrir um 71 milljarða króna að nafnverði auk þess sem ráðgert er að innlausn ríkisvíxla umfram sölu nemi 29 milljörðum króna. Samtals eru því á innlausn 100 milljarðar króna. Ný útgáfa ríkisbréfa er því áætluð 145 milljarðar kr. Óbundnar innistæður ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands námu um sl. áramót 172 milljörðum kr.