Hagfræðideild Landsbankans hefur gefið út Þjóðhag þar sem finna má þjóðhagsspá deildarinnar frá 2014 til 2017. Spáin gerir ráð fyrir áframhaldandi hagvexti úr árið 2017.

Hagfræðideildin telur þó horfur fyrir næsta ár heldur lakari en hún gaf út í spá sinni í maí síðastliðnum, og mun það skýrast að miklu leyti af mun verri horfum fyrir loðnuveiðar en reiknað var með. Að öðru leyti hafi hagvaxtarhorfurnar ekki breyst mikið.

Samkvæmt spánni verður meðalhagvöxtur á spátímabilinu tæp 3,5% samanborið við 3,9% í spánni frá því í maí. Einnig kemur fram að verðbólguhorfur séu ágætar, í það minnsta framan af, þó að hagvöxtur verði nokkuð kröftugur allan tímann.

Hagkerfið stendur á tímamótum

Í spánni kemur fram að núverandi staða íslensks hagkerfið sé merkileg. Erlendar skuldir þjóðarbúsins og skuldir heimila og fyrirtækja fari lækkandi á sama tíma og kaupmáttur launa hafi aukist umtalsvert. Eiginfjárhlutföll stóru bankanna þriggja séu nú með þeim hæstu í heiminum, auk þess sem einkaneysla og fjárfesting hafi tekið við sér og fasteignaverð fari hækkandi. Flest bendi til að þjóðarbúið hafi náð sér á strik eftir efnahagsáfallið 2008, en hins vegar sé hagkerfið sumpart á svipuðum slóðum og það var áður en síðasta þensluskeið hófst fyrir alvöru, um og eftir 2004.

Því standi íslenskt hagkerfi á mikilvægum tímamótum og spurning vakni hvort þeir aðilar sem stýri hagkerfinu, þ.e. ríkisstjórn og Seðlabanki, hafi lært af mistökum fortíðar. Peningastefnan hafi verið varfærin og yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar séu aðhald í ríkisfjármálum, hallalaus rekstur og lækkun ríkisskulda. Umtalsverð fjárútlát úr ríkissjóði til lækkunar einkaskulda lántakenda á verðtryggðum íbúðalánum gangi þó gegn þessari stefnu og valdi áhyggjum vegna þess sem koma skuli.

Óleyst vandamál

Einnig segir í spánni að nokkur stór vandamál sem tengist hruninu séu enn óleyst. Þar skipti mestu uppgjör þrotabúa föllnu bankanna og afnám fjármagnshafta. Önnur stór úrlausnarefni tengist fjármálum hins opinbera og þar vegi einna þyngst gríðarlega erfið staða Íbúðalánasjóðs og ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins.