Gera á úttekt á skattkerfinu og skattkerfisbreytingum undanfarinna ára og leggja fram tillögur til úrbóta með það að markmiði að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna, minnka tekjutengingar og draga úr undanskotum. Kemur þetta m.a. fram í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem formenn flokkanna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson eru að kynna á blaðamannafundi á Laugarvatni.

Þar segir að með stöðugu og skynsamlegu skattkerfi sé unnt að hvetja einstaklinga til að nýta starfskrafta sína og fyrirtækin til að færa út kvíarnar, fjölga störfum og fjárfesta.

„Með einföldun skattkerfisins og innleiðingu jákvæðra hvata verður rekstur fyrirtækja einfaldari og skilvirkari. Með lækkun skatta á tekjur, vörur og þjónustu má ná fram mikilvægum kjarabótum sem útfærðar verða nánar í samráði við aðila vinnumarkaðarins og með hliðsjón af öðrum efnahagsaðgerðum, svo sem afnámi gjaldeyrishafta.“

Þá segir að mikilvægt sé að auka framleiðslu og fjölga störfum. Í þeim tilgangi verði gerðar breytingar á skattaumhverfi fyrirtækja. „Skattkerfið og rekstrarumhverfi fyrirtækja þarf að vera fyrirsjáanlegt svo þau eigi hægara um vik að gera áætlanir og sjái sér hag í að fjárfesta. Ríkisstjórnin mun því leitast við að veita upplýsingar um hvernig skattar og það regluverk sem fyrirtæki starfa eftir muni þróast til framtíðar.“

Á kjörtímabilinu verður tryggingagjald lækkað, lágmarksútsvar afnumið og tekjuskattskerfið tekið til endurskoðunar. Neysluskattar verða jafnaðir og einfaldaðir og vörugjöld endurskoðuð.