Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sótti fund fjármálaráðherra aðildarríkja EFTA og ESB í Lúxemborg í dag. Á fundinum náðist samkomulag milli aðila um meginatriði við innleiðingu þriggja reglugerða um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.

Samkomulagið byggist á tveggja stoða kerfi EES-samningsins sem felur í sér að allar bindandi ákvarðanir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liectenstein, verða teknar af eftirlitsstofnun EFTA og að hægt verði að bera þær undir EFTA-dómstólinn.

Í ársbyrjun 2011 tóku til starfa þrjár nýjar eftirlitsstofnanir á evrópskum fjármálamarkaði. Stofnanirnar þrjár eru Bankastofnun Evrópu, Verðbréfamarkaðsstofnun Evrópu og Vátryggingastofnun Evrópu. Til viðbótar við þær starfar kerfisáhætturáð. Segir í frétt ráðuneytisins að innleiðing reglugerða um stofnanirnar sé forsenda áframhaldandi virkrar þátttöku EES/EFTA-ríkjanna á innri markaðnum með fjármálaþjónustu.

Tilgangur stofnananna er að tryggja nánara samstarf fjármálaeftirlita aðildarríkjanna, auðvelda beitingu evrópskra lausna vegna fjölþjóðlegra vandamála og styðja við einsleita beitingu og túlkun reglna. Daglegt eftirlit með fjármálafyrirtækjum og mörkuðum er eftir sem áður í höndum einstakra ríkja, að undanskildu eftirliti með lánshæfismatsfyrirtækjum og miðlægum mótaðilum.

Stefnt er að því að reglugerðirnar verði teknar inn í EES-samninginn á næstunni.