Kristinn Már Gunnarsson, kaupsýslumaður í Þýskalandi og aðaleigandi og stjórnarformaður Cintamani, hefur átt viðburðaríkan feril í viðskiptum sem hófst í raun strax eftir að hann lauk háskólanámi í Þýskalandi. Árið 1994 opnaði hann fyrstu Vero Moda verslunina í Þýskalandi sem segja má að hafi lagt grunninn að verslunarveldi hans. Í dag rekur hann m.a. félagið Arctic Group sem m.a. sinnir verslunarráðgjöf fyrir nokkrar stærstu fatakeðjur og merki heims.

Kristinn er giftur þýskri konu og saman búa þau í Þýskalandi ásamt börnunum sínum þremur. Hann hefur þrátt fyrir það alltaf eytt stórum hluta af tíma sínum hér á landi og eftir að móðir hans veiktist kemur hann til Íslands í hverjum mánuði og stoppar ýmist i viku eða tvær.

Alltaf haft áhuga á fatabransanum

Hvernig kom það til að þú fluttir til Þýskalands og ákvaðst að hefja störf þar?

„Ég fluttist strax eftir framhaldsskóla til Þýskalands og hef nú búið þar í 25 ár. Í dag bý ég í Düsseldorf en upphaflega flutti ég til Göttingen þar sem ég stundaði þýskunám. Í kjölfarið hóf ég síðan háskólanám í Trier þar sem ég lærði rekstrarhagfræði. Í náminu var ég mikið að skoða þýska markaðinn og ég fann að mig langaði að gera eitthvað sjálfur. Ég hafði alltaf haft mikinn áhuga á fatabransanum og smásölu, í raun öllu sem hafði með búðir og slíkt að gera. Það var þó í raun aldrei á planinu hjá mér að flytja endanlega út.

Í lok árs 1993 gerði ég lokaritgerð í skólanum um þýska smásölumarkaðinn og hluti af vinnunni fólst í því að taka viðtöl við útflutningsstjóra hjá GAP og H&M. Á þessum tíma voru þetta „up and coming“ fyrirtæki sem voru búin að vera á markaðnum í nokkur ár. Ég tók viðtal við þau um þýska markaðinn og Vero Moda sem þá var pínulítið fyrirtæki í Danmörku. Ég komst síðan einhvern veginn í samband við eiganda félagsins og úr varð að ég fékk leyfi til að opna fyrstu Vero Moda-búðina í Trier. Þetta var allt eiginlega af eintómri slysni.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.