„Ég fékk hugmynd með vinkonu minni, Rakel Ósk Orradóttur, að flytja inn kynlífstæki frá Svíþjóð. Í fyrstu var það meira til gamans en síðan vatt það heldur betur upp á sig og hefur gengið glimrandi vel,” segir Gerður Huld Arinbjarnardóttir sem er aðeins 23 ára og á tvö fyrirtæki í dag. Hún á og rekur fyrirtækið Sambandsmiðlun sem aðstoðar fólk við makaleit og fyrirtækið Blush sem flytur inn kynlífstækin.

Gerður Huld segist hafa ákveðið að stofna Blush þegar hún var að koma inn á atvinnumarkaðinn og sá að það var ekki margt spennandi í boði fyrir hana: „Ég er þannig týpa að ef ég ákveð að láta hlutina gerast þá gerast þeir. Það var mjög erfitt í byrjun að stofna þessi fyrirtæki og fá fjármagn. Ég hef verið meira og minna í fjórum vinnum síðustu tvö árin til að láta þetta allt saman ganga upp fjárhagslega og nú eru fyrirtækin mín tvö, Blush og Sambandsmiðlun farin að ganga vel. Í dag eru sjö stelpur að vinna fyrir mig að selja kynlífstækin í heimakynningum um allt landið.”

Gríðarlega mikil sala í kynlífstækjunum

Og er nóg að gera í þessum bransa? „Það er gríðarlega mikil sala í kynlífstækjunum, ég er með sjö til tíu kynningar á viku. Við erum aðallega með kynningar fyrir saumaklúbba, árshátíðir, gæsapartí, afmæli og skilnaðarpartí. Þetta eru í flestum tilvikum konur en einstöku sinnum eru karlapartí þótt það heyri til undantekninga,” segir Gerður Huld.

Hún segir það hörkustarf að eiga og reka fyrirtæki: „Ég þarf að vera tilbúin til að stjórna og sýna frumkvæði alla daga. Metnaður er númer eitt, tvö og þrjú. Ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi og það sem hefur komið mér lengst er að hafa bullandi trú á sjálfri mér.”