*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 27. desember 2007 11:37

Gerir ráð fyrir óróleika fram á mitt næsta ár

Ritstjórn

“Ef litið er yfir það sem hæst ber hjá Exista standa kaup okkar í finnsku fjármálasamsteypunni Sampo Group tvímælalaust upp úr, stærstu fyrirtækjakaup íslensks félags frá upphafi. Það eru mjög ánæguleg kaup í afar öflugu félagi,” segir Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, aðspurður um hæstu tinda í rekstrinum á árinu sem nú er að líða.

Margir helstu banka heims hafa seinustu mánuði neyðst til að afskrifa gríðarlegar fjárhæðir vegna vandræða með undirmálslán og skylda lánavöndla, og hefur umrótið á mörkuðum í kjölfarið aukið óvissu á meðal fjárfesta. Erlendur kveðst telja vandræðin með undirmálslánin trúlegast vera ein helstu vonbrigði ársins. “Stóru bankar heimsins hafa sýnilega ekki gert sér grein fyrir umfanginu og afleiðingum þess á fjármálakerfið í heild sinni,” segir hann. “Undanfarnir mánuðir hafa einkennst af verulegri ókyrrð á mörkuðum, sem sýnir að heimurinn er orðinn eitt markaðssvæði. Atburðarás á einu svæði hefur áhrif út um allan heim.”

 

Hann kveðst eiga von á áframhaldandi hræringum og sveiflum á fjármálamörkuðum heimsins fyrri hluta ársins 2008 en þá fari vonandi að hægjast um. “Ég á von á því að ókyrrð verði áfram fram eftir næsta ári en vonandi ríki meiri stöðugleiki á síðari helmingi ársins,” segir Erlendur.

Mikið hefur verið rætt um lækkun hlutabréfa í Exista seinasta ársfjórðung en Erlendur bendir á að gengið hafi einnig hækkað skarpt á árinu og að gengisþróunin endurspegli í raun verðþróun fjármálafyrirtækja á árinu. “Gengi bréfa í Exista hefur að verulegu leyti þróast í takt við þróun úrvalsvísitölunnar það sem af er ári,” segir Erlendur. Hins vegar sé rekstur félaga í eigu Exista afar traustur og margt sé framundan í starfsemi félagsins. “Við horfum stöðugt til nýrra fjárfestingartækifæra og munum fylgjast vel með. Núverandi staða kann að skapa ný tækifæri,” segir hann.

Aðspurður um þróun vaxta hjá Seðlabankanum kveðst Erlendur þeirrar hyggju að þeir hafi náð hámarki og stefna hljóti í hjöðnun vaxta áður en langt um líður. “Ég held að ákveðið lækkunarferli sé óumflýjanlegt þar sem hækkanirnar hafa náð tilgangi sínum, sem þýðir að  veruleg er að draga úr þenslu. Vextir geta ekki haldist áfram jafn háir og raun ber vitni.”