Lárus Sigurður Lárusson, lögmaður, hefur samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur verið gert að víkja úr starfi skiptastjóra þrotabús fasteignafélagsins Þórodds ehf. vegna brots á starfs- og trúnaðarskyldum sínum sem skiptastjóra. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Fyrrgreindur úrskurður er tilkominn vegna framferði Lárusar tengt sölu á verðmætustu eign þrotabússins, sem er fasteignin Þóroddsstaðir sem staðsett er að Skógarhlíð 22 í Reykjavík. Í úrskurðinum segir að áður en til gjaldþrotaskipta hafi komið hafi eignin verið til sölu hjá fasteignasölunni Mikluborg. 200 milljóna kauptilboð hafi verið samþykkt í fasteignina í fyrra en salan þó ekki gengið upp vegna þess að kaupanda tókst ekki að fjármagna kaupin. Í kjölfar þess að fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta og Lárus skipaður skiptastjóri hafi eignin verið tekið úr sölu hjá Mikluborg en skömmu síðar selt til sama kaupanda í gegnum fasteignasölu Sævars Þórs Jónssonar, en hann er eiginmaður og samstarfsmaður Lárusar. Hins vegar var kauðverðið 70 milljónum lægra en áður, eða 130 milljónir króna í stað 200 milljóna.

Héraðsdómur telur ekki hægt að sjá annað en að hagsmunir Lárusar sjálfs hafi ráðið för í þessari ákvörðun, þar sem að ákvörðunin tryggði að þóknun vegna sölu fasteignarinnar rynni til eiginmanns hans. Eiginmaðurinn fékk 2,5% sölulaun af kaupverðinu sem ku vera hærri sölulaun en gengur og gerist, auk þess að vera 0,5% hærri en miðað er við í verðskrá fasteignasölu eiginmannsins. Nokkur fjöldi annarra tilvika um aðfinnsluverða háttsemi skiptastjórans mun samkvæmt frétt Fréttablaðsins hafa verið getið í úrskurði Héraðsdóms. Jafnframt er bent á að Lárus hafi síðastliðið sumar verið skipaður formaður stjórnar Menntasjóðs Námsmanna af menntamálaráðherra.