Gertner-fjölskyldan er búsett í Bretlandi en á rætur að rekja til Venesúela. Fram kom fyrr í morgun að embætti sérstaks saksóknara er með lánveitingar Kaupþings til Crosslet Vale til rannsóknar vegna gruns um markaðsmisnotkun í aðdranga hruns.

Um það leyti sem Kaupþingi lánaði félaginu 14,9 milljarða króna til kaupa á hlutabréfum í bankanum var Gertner-fjölskyldan sögð hafa í gegnum tíðina umsvifamikil í fasteignaviðskiptum, lóða-, olíu- og námaviðskiptum og hefur fjárfest í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og í Evrópu. Þá hafi félag bræðranna fjárfest í ýmsum verkefnum í Afríku, þ.m.t. í olíulindum og koparnámum í Kongó. Þeir færðu viðskipti sín yfir til Kaupþings í Bretlandi árið 2006 fyrir milligöngu fjárfestisins Roberts Tchenguiz.

Fram hefur komið að Robert Tchenguiz og bróðir hans Vincent fengu á árunum fyrir hrunið 2008 hátt í þrjú hundruð milljarða króna að láni hjá bankanum og voru þeir helstu viðskiptavinir hans. Í breska blaðinu Daily Mail  þar sem fjallað er um Tchenguiz kemur fram að hann hafi fengið umtalsverða þóknun fyrir viðvikið.

Gertner-bræður með sambönd í Kongó

Fram kemur í umfjöllun Rannsóknarskýrslu Alþingis um Crosslet Vale að Kaupþing hafi lánað félaginu 100 milljónir punda árið 2006. Í ágúst árið 2007 bættust 30 milljónir punda við til að fjármagna byggingu járnbrautar.Tvívegis var framlengt í láninu á fyrri hluta árs 2008. Það var á gjalddaga 5. desember árið 2008. Samhliða því voru auknar tryggingar teknar fyrir lántökunum.

Fram kemur í Rannsóknarskýrslunni að stærstu hluti lánveiting a hafi verið til að fjármagna fasteignir og námaréttindi. Crosslet Vale átti á þessum tíma auk fyrrgreindra fjárfestinga olíuréttindi í Bólivíu og Chile og lóð í Tékklandi. Þá höfðu þeir áform um að umfangsmikla fjárfestingu í Kongó, t.d. lagningu þúsund kílómetra járbrautar, byggingu báxíðvinnslu, súrálsvinnslu, álbræðslu og byggingu vatnsorkuvers. Bræðurnir voru sagðir hafa góð tengsl í Kongó í gegnum vin þeirra og fjárfestingarfélaga.

Þá segir í skýrslunni að frá 1. janúar árið 2007 til 30. september árið 2008, um viku áður en bankinn fór í þrot, hafi skuldir Crosslet Vale og tengdra félaga farið úr jafnvirði 14,2 milljörðum króna í 56,5 milljarða.

Af heildarlánunum var 14,9 milljörðum varið til hlutabréfakaupa og 9,4 milljörðum ráðstafað til rekstrar. Í Rannsóknarskýrslunni eru fjárfestingar félagsins í olíulindum skilgreindar sem sem rekstur.