Með notkun á nýju kerfisrými getur starfsfólk Landsvirkjunar við Háaleitisbraut viðhaldið tölvurekstri og netsambandi óhindrað í allt að 5 klukkustundir ef rafmagnsleysi gerir vart við sig.

Í kerfisrýminu er að finna varaaflgjafa sem kemur í veg fyrir tímabundið rafmagnsleysi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja.

„Ef rafmagnsleysi verður langvarandi er varaaflgjafinn hannaður sérstaklega til þess að keyra niður tölvukerfi og koma þannig í veg fyrir að gögn glatist," segir Gísli Þorsteinsson upplýsingafulltrúi Nýherja, en fyrirtækið annaðist uppsetningu kerfisrýmisins fyrir Landsvirkjun, í tilkynningunni.

Í kerfisrýminu eru ennfremur netþjónar, netbúnaður og kælivélar sem eru tengdar við eftirlitskerfi er sendir boð ef bilun verður í búnaði.

Einnig vaktar eftirlitsbúnaðurinn hita og rakastig í skápum og rými.