Nauðsynlegt er að reyna að stöðva fjölgun öryrkja og það getur ekki talist eðlilegt að yfir 15 þúsund manns séu á örorkuskrá. Þetta sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins á morgunverðarfundi SA.

„Það er ekki eðlilegt að það séu á milli 8 og 9% af vinnuafli landsmanna öryrkjar. Það getur bara ekki verið að við séum svona veik í öllu þessu góða heilbrigðiskerfi, “ sagði Vilhjálmur. Hann segir nauðsynlegt að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana og ná til fólks eins fljótt unnt í því ferli þegar það fer í veikindi og síðan yfir á örorku og reyna að passa upp á að halda fólki á vinnumarkaðinum.