Hagfræðideild Landsbankans segir í nýrri Hagsjá að greining á afkomu mjólkurframleiðenda bendi til þess að ríkisstuðningur í formi beingreiðslna til mjólkurframleiðenda sé enn nauðsynlegur. Þróunin hafi hins vegar verið nær stöðug fram á við á síðustu árum í átt að aukinni sjálfbærni.

Í Hagsjánni segir að samhliða því að framleiðsla og sala á mjólkurafurðum hafi aukist á síðustu árum hafi fjöldi og fyrirkomulag kúabúa í landinu breyst. Einstökum framleiðendum hafi fækkað og framleiðsla hafi aukist um 19 milljónir lítra, eða 18,4%. Meðalnyt á hverja kú hafi því aukist töluvert. Þrátt fyrir aukninguna standi Ísland hins vegar aftarlega þegar kemur að bústærð og meðalnytjum samanborið við nágrannaþjóðir.

Í greiningunni segir einnig að samlegðaráhrif virðist vera nokkur í mjólkurrekstri þegar grunnrekstur er skoðaður. Rekstrarhagnaður fari hratt hækkandi með bústærð þar sem nokkrir flokkar hafi rekstrarhagnað. Stærstu búin hafi verið með allt að 22% hærri framlegð og 24% hærri meðalnyt árið 2012 en minnstu búin.

Hagfræðideildin telur að ef mjólkurframleiðsla hér á landi eigi að fylgja erlendri þróun ættu bætt meðalnyt að vera aðalmarkmið. Þrátt fyrir að meðalnyt íslenskra kúa hafi dregist aftur úr í alþjóðlegum samanburði ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að vinna upp muninn. Þekkingin og tæknin séu til staðar.