Á síðustu vikum hefur eigið fé Geysis Green Energy verið aukið um rúma fimm milljarða íslenskra króna, en þar af eru um tveir milljarðar frá Ólafi Jóhanni Ólafssyni, nýjum stjórnarformanni og Adam Wolfensohn, framkvæmdastjóri Wolfensohn & Company.

Á hluthafafundi félagsins í dag kom fram að hlutafé félagsins hefur verið aukið um sem svarar til 55 milljónum bandaríkjadala, auk þess að við yfirtöku á dótturfélaginu Exorku International í Þýskalandi, var minnihlutaeigendum þar greitt með hlutabréfum í Geysi að andvirði um 1.200 milljónir króna.

Í undirbúningi er enn frekari fjármögnum félagsins og sér fyrirtækjaráðgjöf Glitnis um þann þátt. Þá hefur verið unnið í endurfjármögnun lána og hefur sú vinna gengið vel.

Helstu eigendur Geysis Green Energy eru í dag:

Atorka, (Renewable Energy Resources) 39,7%, Glacier Renewable Energy Fund (Glitnir o.fl.) 38,6%, VGK Invest (Mannvit) 8,8%, Wolfensohn & Co. 3,9%, Geodynamics 2,8% og Ólafur Jóhann Ólafsson, 2,6%.