Gísli Guðmundsson, sem kenndur hefur verið við Bifreiðar og landbúnaðarvélar, bjargaði DV þegar fjárhagsstaða blaðsins var sem verst.

Þetta kom fram í máli Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, Í Kastljósi í kvöld. Reynir var gestur í Kastljósinu ásamt Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni og ræddu þeir þær sviptingar sem orðið hafa í eigendahópi blaðsins.

Reynir sagði að Gísli Guðmundsson hafi bjargað blaðinu „á brún hengiflugsins í gegnum félagið Umgjörð. Um það leyti kemur Þorsteinn Guðnason inn í myndina, sem er aðstoðarmaður Gísla,“ sagði Reynir.

Sigurður sagðist gæta hagsmuna Gísla Guðmundssonar sem hafi bjargað DV úr snörunni.

Þorsteinn var stjórnarformaður DV þar til fyrr í mánuðinum þegar skipt var um formann, m.a. vegna deilna innan stjórnarinnar um kaup Þorsteins á hlut Lilju Skaftadóttur í félaginu.

Á morgun er hluthafafundur í DV og mun þar ráðast hvort núverandi stjórn njóti stuðnings meirihluta hlutahafa.