Í kjölfar fjórðu endurskoðunar efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og íslenskra stjórnvalda stækkar gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands, að frátöldum skammtímaskuldbindingum, í ríflega 4 milljarða evra. Það jafngildir á sjöunda hundrað milljarða króna og hefur gjaldeyrisforðinn aldrei verið stærri.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni í dag og segir að í ljósi þessa sé óhætt að segja að forðinn sé að mati flestra nú líklega nægilega stór til að hægt sé að stíga næstu skref í afnámi gjaldeyrishafta. Seðlabankinn hyggst birta áætlun sína um þau efni í mars næstkomandi.

Fjórða endurskoðun var samþykkt í gærkvöldi og í kjölfarið verður fimmti hluti láns AGS að upphæð 160 milljónum dala til reiðu, jafnvirði um 19 milljörðum króna. AGS hefur nú afgreitt 1,7 milljarða Bandaríkjadala af láni sínu til Íslands. Það jafngildir rúmlega 176 milljörðum króna.

„Þá stendur íslenskum stjórnvöldum nú til boða síðari helmingur lánsins frá Norðurlöndunum að upphæð tæplega 890 milljónum evra en hinn helmingurinn hefur nú þegar verið nýttur. Ádráttartími þeirrar upphæðar sem enn hefur ekki verið nýtt er jafnframt framlengd til ársloka 2011. Þá er umsamið lán frá Póllandi nú að fullu aðgengilegt en lánið nemur 162 milljónum evra.  Þriðjungur þeirrar upphæðar hefur nú þegar verið nýttur,“ segir í morgunkorni.

Nýjar áherslur

Í Morgunkorni er bent á að efnahagsáætlun AGS og íslenskra stjórnvalda virðist taka breytingum í kjölfar fjórðu endurskoðunar. „Þar til nú hefur efnahagsáætlunin byggst upp á þremur meginþáttum sem hafa verið gengisstöðuleiki,  uppbyggingu trausts fjármálakerfis og styrka stjórn fjármála ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt tilkynningu Efnahags- og viðskiptaráðuneytisins sem birt er á heimasíðu ráðuneytisins byggir efnahagsáætlunin nú á fjórum meginþáttum.

Fyrstu tveir eru eftir sem áður uppbygging trausts fjármálakerfis og jafnvægi í ríkisfjármálum. Nú er þriðja markmiðið að móta verður peningastefnu til frambúðar og taka frekari skref til afnáms gjaldeyrishafta. Þá er búið að bæta við fjórða markmiðinu sem er að tryggja þarf aðlögun skulda heimila og fyrirtækja með virkri þátttöku lánastofnana.  Athyglisvert verður að sjá þessi nýju atriði útfærð nánar, en á næstu dögum birtir AGS skýrslu sína í tengslum við fjórðu endurskoðun og þá er ný viljayfirlýsing stjórnvalda í tengslum við þennan áfanga líklega  væntanleg innan tíðar eins og venjan hefur verið við fyrri endurskoðanir.

Efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda er nú rúmlega hálfnuð. Enn eru eftir 3 ársfjórðungslegar endurskoðanir og gangi allt eftir mun samstarfinu við sjóðinn ljúka formlega í ágúst næstkomandi,“ segir í morgunkorni.