Gjaldeyrisjöfnuður bankanna var jákvæður um tæplega 84 milljarða króna í júnílok, segir greiningardeild Glitnis, sem er um 14,4% af samanlögðu eigin fé bankanna en hlutfallið verður að vera innan við 30% hjá hverjum banka, samkvæmt reglum Seðlabankans.

?Þetta hlutfall hækkaði skyndilega í nóvember á síðasta ári og hefur haldist hátt síðan, en hafði fram að því verið lágt síðustu ár. Ekki liggur fyrir sundurliðun eftir einstökum bankastofnunum, en í reglum Seðlabanka er ákvæði um að heimilt sé að veita undanþágu frá hámarksákvæði til bankastofnunar ef tilgangur stöðunnar er vörn gegn óhagstæðum gengisáhrifum á eiginfjárhlutfall," segir greiningardeildin.

Jákvæður gjaldeyrisjöfnuður fór í tæp 20% við lok mars mánaðar en hefur síðan lækkað. Gjaldeyriseignir fjármálastofnana, um fram skuldir, er meiri en gjaldeirsforði Seðlabankans, sem nam um 70 milljörðum við lok maí, að sögn greiningardeildarinnar.

?Fjármálaeftirlitið breytti áfallaprófum sínum fyrir fjármálafyrirtæki um síðustu áramót á þá lund að bætt var við prófi sem mat áhrif af gengisbreytingum á eiginfjárhlutfall fyrirtækjanna, og er hugsanlegt að aukning sú sem varð á jákvæðri nettóstöðu í nóvember hafi verið tengd þeim breytingum," segir greiningardeildin.