Miðað við viðskiptajöfnuð við útlönd á síðasta ári er útlit fyrir að ekki veðri nægur gjaldeyrir í landinu til að standa undir erlendum afborgunum þjóðarbúsins á næstu árum, að því er segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Viðskiptaafgangur ársins 2012 nam 13,9 milljörðum króna eða 0,8% af landsframleiðslu ársins og varlítillega minni en spá Seðlabankans, sem hafði gert ráð fyrir afgangi upp á 1,9% af VLF á árinu 2012. Erlend skuldastaða þjóðarbúsins var svo neikvæð um 1041 milljarð króna, eða sem nemur ríflega 60% af landsframleiðslu ársins. Í Markaðspunktum segir að í raun megi ætla að erlenda skuldastaðan sé lítillega verri en sem þessu nemur, því undanskilin eru öll áhrif gömlu bankanna og horft framhjá því að nýju bankarnir Arion og Íslandsbanki eru að mestu leyti í eigu erlendra kröfuhafa.

Greiningardeildin segir að þrátt fyrir að sögulega sé hreina staðan ekki svo slæm þá sé ekki hægt að horfa framhjá því að framundan eru afborganir erlendra lána á bilinu 80-90 milljarða króna á árunum 2013 til 2015 sem þjóðarbúið þarf að standa skil á. „Ef við stillum viðskiptaafgangi ársins upp ásamt spá [seðlabankans] til næstu ára og tökum áhrif vegna Actavis út fyrir sviga þá er ljóst að útlit er fyrir að ekki verði nægur gjaldeyrir til að standa undir þeim afborgunum sem framundan eru. Það liggur því í augum uppi að aðkallandi verkefni er að samningar náist um lengingu lána og endurfjármögnun sbr. Orkuveituna, sveitarfélög og Landsbankann. Að öðrum kosti mun krónan gefa eftir á komandi árum,“ segir í Markaðspunktunum.