„Upptaka og uppboð á aflaheimildum sem ríkisstjórnin hefur boðað mun hafa þungbær áhrif á fyrirtæki í sjávarútvegi," segir Friðrik Sophusson stjórnarformaður Íslandsbanka í aðsendir grein í Viðskiptablaðinu.

„Aðgangur að aflaheimildum er í flestum tilfellum grunnforsenda rekstrar viðkomandi fyrirtækis. Upptaka og uppboð aflaheimilda rýrir verðmæti heimildanna og hefur þar af leiðandi neikvæð áhrif á efnahag fyrirtækja. Upptaka og uppboð hafa jafnframt neikvæð áhrif á reksturinn þar sem gert er ráð fyrir að fyrirtækin leigi aflaheimildir aftur gegn gjaldi," segir Friðrik.

Fjölgar gjaldþrotum

„Þetta mun fjölga gjaldþrotum og draga kraftinn úr þeim fyrirtækjum sem geta þó lifað af slíkar breytingar. Að auki leiðir þetta til blóðtöku fyrir öll þau fyrirtæki sem byggja afkomu sína á ýmis konar þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki."

Lán til sjávarútvegsfyrirtækja 400 milljarðar

„Útlán til sjávarútvegsfyrirtækja vega þungt í efnahagsreikningum stóru viðskiptabankanna þriggja. Um 12% af útlánum Íslandsbanka er til fyrirtækja í sjávarútvegi og um 24% af útlánum Landsbankans. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja við viðskiptabankana þrjá nema u.þ.b. 400 milljörðum króna. Gjaldþrotahrina í greininni hefði því alvarleg áhrif á efnahag fjármálafyrirtækja," segir Friðrik. Hann telur að Íslandsbanki standi væntanlega slíkt högg af sér en bankinn stæði óneitanlega mun veikari eftir.

„Veikt fjármálakerfi hefur takmarkaða getu til nýrra útlána og mun því draga úr stuðningi við uppbyggingu atvinnulífsins. Þegar tekið er tillit til hve mikilvægu hlutverki sjávarútvegurinn gegnir í endurreisn efnahagslífsins, er nauðsynlegt að starfsumhverfi greinarinnar sé í lagi. Við núverandi aðstæður þurfa stjórnvöld að snúa sér að brýnustu verkefnunum í stað þess að ýta undir óróa og óvissu," segir Friðrik Sophusson.