Hækkanir á fasteignaverði hafa verið með allra mesta móti á síðustu mánuðum samk'væmt frétt Greiningardeildar KB banka og hefur fasteignaverð hækkað um rúmlega 8% síðastliðna 3 mánuði samkvæmt gögnum frá Fasteignamati ríkisins. Að mati Greiningardeildar mun fasteignaliður vísitölu neysluverðs hækka verulega í næsta mánuði, en einnig leggjast til töluverðar hækkanir á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur auk þess sem ýmis önnur þjónusta og kostnaður vegna húsnæðis hækkar um áramót.

Samtals mun húsnæðisliður vísitölu neysluverðs valda um 0,45% hækkun á vísitölu neysluverðs að mati Greiningardeildar. Opinber þjónusta hækkar alla jafna á þessum árstíma svo sem leikskólagjöld, komugjöld á heilsugæslustöðvar og afnotagjöld ríkisútvarpsins. Á síðastliðnum 5 árum hefur opinber þjónusta hækkað um 6% að meðaltali á ári eða að meðaltali hálfu prósentustigi umfram verðbólgu. Einnig eru gjaldskrárhækkanir víða sem vinna á móti lægra verði vegna útsala.