Þeir sem áhuga hafa á erlendum fasteignum ættu að kíkja á heimili ítalska tískuhönnuðarins Gianni Versace á Miami Beach. Húsið var nýverið boðið til sölu.

Húsið er talsvert stærra en meðalbústaður við Þingvallavatn og er verðmiðinn eftir því: 125 milljónir dala, jafnvirði rétt rúmra 16 milljarða íslenskra króna. Fasteignasalinn segir í samtali við bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal, að verðið sé með því hæsta sem gerist á Miami. Á hinn bóginn horfi orðið margir erlendir fjárfestar til Miami og því sé þetta rétti tíminn til að setja aðra eins eign á fasteignamarkaðinn.

Húsið er tæpir 1.800 fermetrar með 10 herbergjum, einu baðherbergi meira, rúmlega 16 metra langri sundlaug í garðinum. Í kringum sundlaugina eru gullhúðaðar styttur. Margt annað í húsinu er í svipuðum dúr.

Húsið var byggt árið 1930 í anda glæsihýsa í Dóminíska lýðveldinu. Versace keypti húsið árið 1992 og varði 33 milljónum dala í endurbætur og viðbyggingu, sundlaugina og garðræktina. Tískuhönnuðurinn var myrtur á tröppum hússins árið 1997. Þremur árum síðar var húsið selt og hélt kaupandinn því við.

Áhugasamir kaupendur geta skoðað myndir af húsinu hér og dæmi nú hver fyrir sig.