Keiluhöllin tapaði tæplega 35 milljónum króna á rekstrarárinu 2012 samkvæmt ársreikningi félagsins. Þetta er lakari niðurstaða en árið 2011 þegar 8 milljóna tap var af rekstrinum. Eignir félagsins eru metnar á 756 milljónir króna, skuldir á 591 milljón og er því eigið fé félagsins um 165 milljónir.

Björk Sigurðardóttir sem á 83% hlut í félaginu á einnig Keiluhöllina í Egilshöll. Það félag var einnig rekið með tapi á síðasta ári sem nam 47 milljónum króna en félagið var stofnað árið 2011.

Eigið fé þess var neikvætt um 47 milljónir í lok árs 2012 en eignir félagsins nema 199 milljónum króna og skuldir um 246 milljónum.